Íslenski flautukórinn og Listasafn Íslands standa fyrir hádegistónleikaröð í Listasafni Íslands. Síðasta föstudag hvers mánaðar er boðið upp á fjölbreytta tónlist til þess að vinda ofan af vinnuvikunni og endurræsa skilningarvitin.
Aðgangur er ókeypis.
Á tónleikum flytur Berglind Tómasdóttir eigin verk fyrir flautur og rafhljóð af væntanlegri plötu.
Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á hátíðum víðs vegar í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.
Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins