Íslenski flautukórinn og Listasafn Íslands standa fyrir hádegistónleikaröð í Listasafni Íslands. Síðasta föstudag hvers mánaðar er boðið upp á fjölbreytta tónlist til þess að vinda ofan af vinnuvikunni og endurræsa skilningarvitin.
Aðgangur er ókeypis.
Flytjendur: Hafdís Vigfúsdóttir, flauta
Halldór Bjarki Arnarson, semball
Efnisskrá
J.S. Bach: Sónata í Es-dúr BWV 1031
I. Allegro moderato
II. Siciliana
III. Allegro
J.S. Bach: Sónata í E-dúr BWV 1035
I. Adagio ma non tanto
II. Allegro
III. Siciliano
IV. Allegro assai
Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins.
Hafdís Vigfúsdóttir hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B.Mus. gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega Konservatoríinu í Den Haag í Hollandi, sem og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi, auk mastersgráðu frá Tónlistarháskólanum í Osló. Aðalkennarar Hafdísar gegnum tíðina hafa verið þau Guðrún Birgisdóttir, Martial Nardeau, Philippe Pierlot, Juliette Hurel, Per Flemström og Tom Ottar Andreassen. Árið 2010 hlaut Hafdís önnur verðlaun í “Le Parnasse”, alþjóðlegri tónlistarkeppni í París. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Íslenska flautukórnum, Kammersveit Reykjavíkur, Ungfóníu, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á námsárunum lék hún með ýmsum hljómsveitum, m.a. Ungdomssymfonikerne, Orchestra NoVe og Norsku útvarpshljómsveitnni (KORK). Hafdís hefur frá því hún flutti heim gegnt lausamennsku við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar. Hún er ein stofnenda og skipuleggjanda Tónlistarhátíðarinnar Bergmál á Dalvík (2010 - 2016).
Halldór Bjarki Arnarson lauk framhaldsprófi í hornleik vorið 2011 frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Kennarar hans voru Darren Stoneham, Anna Sigurbjörnsdóttir, Emil Friðfinnsson og Joseph Ognibene. Hann sótti tíma á píanó meðfram hornnáminu hjá Hauki Guðlaugssyni, Halldóri Haraldssyni, og seinna Thomas Hell. Í júlí 2016 lauk hann fjögurra ára Bachelorsnámi við tónlistarháskólann í Hannover með horn sem aðalfag undir handleiðslu Markusar Maskuniitty. Haustið 2014 bætti hann við sig námi í tölusettum bassa á sembal hjá Zvi Meniker, prófessor við hinn sama skóla, og tók uppfrá því virkan þátt í deild gamallar tónlistar þar. Halldór hefur fengist við aðrar tónlistarstefnur þar að auki. Hann syngur og leikur á söguleg íslensk hljóðfæri í þjóðlagahljómsveitinni Spilmenn Ríkínís og kemur reglulega fram sem djass- og dægurlagapíanisti svo eitthvað sé nefnt. Halldór hefur þó nokkrum sinnum átt innlegg í sjóði nýrra íslenskra tónverka, og hafa verk hans verið flutt við ýmis tækifæri, bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Helstu leiðbeinendur hans í þeirri grein hafa verið Atli Heimir Sveinsson og John A. Speight.